Ingunn Hafstað

 Ég útskrifaðist frá Arkitektaháskólanum í Osló vorið 1993 og starfaði þar í tvö ár eftir námið, fyrst á arkitektastofu Bergesen Gromholt og Ottars í Osló og síðan á arkitektastofu Guðmundar Jónssonar í Osló.

Haustið 1995 fluttist ég til Íslands og réð mig fljótlega í vinnu á teiknistofu Guðna Pálssonar í Bankastræti 11. Þar var ég í eitt ár en starfaði svo sjálfstætt fram til 2001. Þá var ég ráðin til Teiknistofunnar Úti og Inni þar sem ég starfaði til byrjun árs 2006 en þá hófs samstarf okkar Sigríðar Maack. Við stofnuðum arkitektastofu saman sem síðar varð Arktíka ehf. Stofan sameinaðist arkitektastofunni Funki ehf árið 2007 en það samstarf leystir upp haustið 2008 vegna efnahagshrunsins. Eftir það var ég í eigin rekstri, teiknaði og hannaði minni verkefni s.s. sumarbústaði, viðbyggingar og ýmis innréttingaverkefni. Ég réð mig í vinnu í rúmt ár á Studíó Stafni og gekk í hin ýmsu störf þar m.a. við forvörslu listaverka og uppsetningu ýmissa listasýninga. Ég vann í eitt ár með Höllu Hamar arkitekt en við teiknuðum fjölbýlishús í Mosfellsbæ. Árið 2018 endurvöktum við Sigríður Maack Arktíka ehf og höfum starfað saman síðan.

Ég hef tekið tekið ýmis námskeið sem tengjast faginu s.s. námskeið í gerð deiliskipulags, hönnun og verktakasamingsgerð, gerð skráningatöflu og viðskiptaáætlana svo eitthvað sé nefnt.

Ég hef einnig tekið þátt í hönnun og uppsetningu ýmissa sýninga bæði í Osló og á Íslandi, fyrir utan uppsetningu ýmsa listasýninga fyrir Studio Stafn í samvinnu við Viktor Smára Sæmundsson forvörð þá tók ég þátt í uppsetningu sýningarinnar „Akranna skínandi skart“  í Vesturfararsetrinu á Hofsósi í samvinnu með Áslaugu Jónsdóttur rithöfund og listakonu. Einnig vann ég við uppsetningu ljóðasýningarinnar „Íslands 1000 ljóð“ í bókminjasal Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu í samvinnu með Áslaugu Jónsdóttur rithöfund og listakonu og að handverksýningu í Safnaheimili Sauðárkróks í tilefni 100 ára afmælis Kvenfélags Skagfirðinga.

 

Sigríður Maack

 Ég hóf nám í Arkitektaháskólanum í Árósum en flutti mig síðan yfir til Kaupmannahafnar þar sem ég útskrifaðist vorið 1990 frá Arkitektaskóla Konunglegu Listaakademíunnar.

Að námi loknu fluttist ég til Japan þar sem maðurinn minn fór í framhaldsnám og frumburður okkar fæddist. Þar áttum við yndislega 5 ára dvöl þar sem við fengum tækifæri til að kynnast þessari einstöku menningu.

Eftir heimkomu starfaði ég á teiknistofunum Glámu-Kím, Tark og hjá Pálmari Kristmundssyni en líka hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík og hjá Myndlistarskólanum í Reykjavík við kennslu barna í arkitektúr.

Við Ingunn hófum rekstur saman 2005, sem síðar varð Arktíka, og 2007 sameinuðumst við góðu samstarfsfólki okkar, Önnu Hjartardóttur og Ómari Sigurbergssyni á Funkis. Í efnahagshruninu 2008 var starfsemi sjálfhætt en samstarf okkar Ingunnar hélt þó áfram, þótt með hléum væri. Árið 2017 slógumst við í hóp annarra rekstaraðila í hönnun, arkitektúr og landslagsarkitektúr og innréttuðum saman húsnæði að Laugavegi 178 þar sem við njótum þverfaglegs samstarfs.

Við Ingunn leggjum áherslu á símenntun og höfum setið fjölda námskeiða sem tengjast faginu s.s. í gerð deiliskipulags, húsakönnunar, hönnunar- og verktakasaminga, eignaskiptayfirlýsinga og vistvænni hönnun svo eitthvað sé nefnt.

Ég hef jafnan tekið virkan þátt í starfi Arkitektafélags Íslands, m.a. í hönnun sýningar  á verkum Högnu Sigurðardóttur á Kjarvalsstöðum 2009 og HönnunarMars 2010. Sem meðlimur í ritnefnd AÍ 2013-2015 og átti ég þátt í undirbúningi að stofnun nýs tímarits, HA, sem var sameiginlegt tímarit allra aðildarfélaga Miðstöðvar hönnunar- og arkitkektúrs, og sat í ritstjórn þess fyrstu tvö árin. Frá 2019 hef ég átt sæti í stjórn AÍ, fyrst sem ritari og nú sem formaður.